CROSSING BORDER ANTWERP 2 NOV 2023
Kies de taal
ICELAND
NETHERLANDS
Fríða Ísberg - 5
14 November 2022
Og svo líða auðvitað dagarnir. Við erum ekki komin heim, heldur dveljum í mánuð í Antwerpen áður en við förum aftur heim til Íslands. Á næturnar erum við bitin af moskítóflugum, eitt til tvö bit á nóttu. Við eyðum dögunum í að drepa þær með bókamerkjum, og hrópum húrra þegar okkar eigið blóð birtist splatterað á hvítum veggjunum.
Að ráða niðurlögum einhvers: Að drepa einhvern. Orðið niðurlag á íslensku þýðir lokakafli eða lokaerindið í kvæði. Þannig ertu að skrifa síðasta kafla þess sem þú drepur.
Síðasta stroop vafflan frá Hollandi var étin í gær. Maðurinn minn átti hana, tæknilega, en hann gaf mér fjórðung. Ég elska bakkelsi eiginlega meira en allt. Ef ég ætti að taka með mér þrjá hluti á eyðieyju myndi ég taka með mér bakarí. Þess vegna snerti það mig afskaplega djúpt þegar Laura þýðandi rétti mér vöfflurnar á laugardagskvöldinu og sagði að ég gæti ekki farið frá Hollandi án þess að smakka þær.
Maðurinn minn finnur moskítófluguspá á netinu. Þegar kólnar þá leitar þær inn og þannig er hægt að spá fyrir komu þeirra. Moskítóflugur eru ekki á Íslandi.
Ég þræði bakaríin hérna í Antwerpen. Sum eru helvísk og önnur himnesk. Ég kann að meta báðar týpur.
Niður vísar til þess að risið sé á enda og lagið á leiðinni niður. Niðurlagshljómur er final chord. En lag er margrætt orð líka. Það getur verið sönglag eða lag í jarðvegi, köku, húð.
Á laugardeginum á hátíðinni vorum við Laura í Chronicles panelnum og ég spurði salinn hvort einhver þarna inni hefði lesið þetta blogg. Ein manneskja rétti upp hönd. Þá var það Kim, sem les yfir og leiðbeinir Lauru í þýðingunni. Stundum líður mér eins og bókmenntir séu þessi salur.
Niðurlag er einnig orðið yfir lokahnykkinn í ritgerðum: Inngangur, meginmál, niðurlag.
Ég mun alltaf vera þakklát Crossing Borders hátíðinni fyrir eitt sérstaklega. Þetta var helgin sem barnið þurfti að læra að sofna hjá pabba sínum. 8 mánaða gömul uppi í hótelherbergi. Sannkölluð eldskírn.
Maðurinn minn gengur um Antwerpen alla daga með DEN HAAG húfuna með áritunum þremur. Húfan fær mig oft til þess að brosa.
Í dag er 16. nóvember 2022 og himininn er afskaplega blár. Göturnar glitra eins og allt sem hefur nokkurn tíma glitrað og mín bíður bakarí á næsta götuhorni.
WAT HEEFT DIT VERHAAL GEÏNSPIREERD?
Meer van Fríða Ísberg en Laura Molenaar
Zie The Chronicles live tijdens Crossing Border 2022