CROSSING BORDER ANTWERP 2 NOV 2023
Kies de taal
ICELAND
NETHERLANDS
Fríða Ísberg - 4
6 November 2022
Taugakerfi. Þegar maður hefur lesið dálítið magn af ljóðabókum þá les maður líka, óumflýjanlega, dálítið magn af myndlíkingum um taugakerfið, eða æðakerfið, og oftar en ekki er þessu líkt við rætur trjáa eða götur í borgum.
Á panelnum í gær sagði Olga Ravn frá uppruna Aspirin. Ég hafði aldrei heyrt þetta áður: að Aspirin kemur úr birkitrjám, reyndar froðunni af berki birkitrjáa, og áður fyrr hefði fólk rifið börkinn af trénu og tuggið, og þá hvarf höfuðverkurinn.
Ég er svo þreytt. Ég verð alltaf svona á bókmenntahátíðum. Taugakerfið þolir ekki meira en einn dag. Það tekur líka á að brjótast út úr feimninni. Það er erfiðisvinna og ég verð þreytt í líkamanum, vöðvunum. En þegar maður kemst í gegnum eigin varnir nær maður tengingu við fólk og það er gott.
Olga Ravn áritaði DEN HAAG derhúfuna mína.
Stundum líður mér eins og auðlindir myndlíkingarinnar séu uppornar. Sólin er eins og allt sem hefur verið hnöttótt eða gult eða heitt eða ógnandi. Tunglið er eins og allt sem hefur verið hnöttótt eða hvítt eða kalt eða einsamalt.
Stórfyrirtækin tóku birkitrén, sagði Olga, þjöppuðu efninu úr birkitrénu í pilluform, en pillurnar höfðu þveröfug áhrif: fólkið varð veikt. Kom í ljós að líkaminn þurfti sykur og trefjar úr berkinum til þess að vinna úr tréfroðunni.
Í hádeginu áritaði Hernan Diaz derhúfuna líka.
Tré: hversu oft mun ég þurfa að lesa ljóð þar sem greinum er líkt við handleggi eða fingur?
Alltaf þegar ég tala um taugakerfið í mér þá hugsa ég um mömmuna í Pride and Prejudice, Mrs. Bennett, sem kveinkar sér alltaf með frasanum My poor nerves! How can you do this to my poor nerves!
Og Mariana Enriquez – sem ég áreitti í lyftunni – hún áritaði líka derhúfuna.
WAT HEEFT DIT VERHAAL GEÏNSPIREERD?
Meer van Fríða Ísberg en Laura Molenaar
Zie The Chronicles live tijdens Crossing Border 2022