CROSSING BORDER ANTWERP 2 NOV 2023
Kies de taal
ICELAND
NETHERLANDS
Fríða Ísberg - 3
5 November 2022
Fyrst er borgin gríðarlega stór. Ókunnug gata eftir ókunnuga götu, eftir nýtt horn er nýtt horn, kirkja og sporvagnar. Kaffihús, túristabúðir. Svo smátt og smátt, tilfinning fyrir áttunum. Miðbærinn minnkar, yfirsýnin eykst.
Nánast allt síðasta ár var eldgos á Íslandi. Pabbi minn kallaði það lítið túristagos af því að það var auðveldlega hægt að ganga upp að því með kaffi í brúsa og fylgjast með jörðinni sjóða upp úr.
Á hótelinu sé ég frægan rithöfund sem ég hef lesið.
Ég segi: Mig langar svo að fá áritun hjá þér.
Hún segir: Við reddum því.
Fyrir nákvæmlega ári síðan fluttum við maðurinn minn í nýtt hverfi. Ég hafði ekki búið í þessum hluta borgarinnar áður og á hverjum degi gekk ég göturnar, gráðug, augun opin fyrir garðastígum, leynileiðum, skjólsælum bekkjum þar sem hægt væri að lesa. Og eftir því sem ég gekk meira vék óvissan fyrir vissunni, og hverfið minnkaði.
Aftur út að ganga með barnavagninn. Ég fer inn í bakarí.
Spurningin: Hvað má bjóða þér?
Svarið: Eitthvað sem ég hef ekki prófað áður.
Bæði Íslendingar og túristarnir gerðu alls konar vitleysu í kringum eldgosið. Einhver steikti hamborgara, annar bakaði pítsu, fólk kom með gítar og hélt brekkusöng, gólaði gömul sjómannalög.
Í nóvember 2021 gekk ég um nýja hverfið og hugsaði: Virka manneskjur eins? Minnkar maður þær eftir því sem maður þekkir þær betur? Ég hugsaði um allar alhæfingarnar sem ég hafði sagt í gegnum tíðina. Hversu oft ég hafði sagt alltaf og aldrei.
Ég spurði vinkonu mína og hún vissi það ekki. Þessi sama vinkona hafði átt í erfiðleikum með að búa með öðru fólki, á einhverjum tímapunkti hætti hún að þola það. Sjálf var ég að hugsa um foreldra mína. Að hætta að gera ráð fyrir viðbrögðum þeirra, að leyfa þeim að njóta vafans.
Við göngum framhjá túristabúð og rekum augun í derhúfu með orðunum DEN HAAG. Við förum rakleiðis inn og kaupum hana. Glottið svo hömlulaust að það jaðrar við dónaskap.
Að minnka manneskjur: tvíhyggjan í kringum mýkt og hörku. Mýkt, þegar kemur að innra lífi, tengd við ást, fyrirgefningu, umburðarlyndi. Harkan við ofbeldi, reiði, óþol. En mér fannst þetta samt ný uppgötvun: hvernig mín eigin reiði gat látið aðra manneskju storkna, festast í steypt form, og hvernig fyrirgefningin gat brætt hana jafnóðum aftur.
Það var vandamál hversu margir túristar hættu sér út á hraunið. Oft leit það út fyrir að vera storknað, en undir niðri var enn glóandi, gleypandi kvika.
Næsti göngutúr: Ég geng í aðra átt. Og um leið stækkar borgin aftur, verður óendanleg og ófyrirsjáanleg, ókunnugt horn fyrir ókunnugt horn.
WAT HEEFT DIT VERHAAL GEÏNSPIREERD?
Meer van Fríða Ísberg en Laura Molenaar
Zie The Chronicles live tijdens Crossing Border 2022