CROSSING BORDER ANTWERP 2 NOV 2023
Kies de taal
ICELAND
NETHERLANDS
Fríða Ísberg - 2
4 November 2022
Lestin æðir áfram. Út um gluggann: Þýskaland, Þýskaland, Þýskaland, svo Holland.
Skyndilega erum við stödd á veitingarstað. Tíu pítsur og hundrað fingur. Lagið: Golden Brown, texture like sun. Lays me down, with my minds she runs.
Ég segi: Þegar ég er þreytt elska ég dóttur mína örlítið meira.
Ég segi: Ég tók fjórar lestar í dag.
Þó svo að eyjan sem ég er frá er stærri í rúmmáli en mörg lönd í Evrópu eru þar engar lestar, hvorki í borgum né sveitum. Þetta þýðir að þegar lest kemur fyrir í skáldskap á íslensku, veit lesandinn um leið að sögusviðið á sér stað í útlöndum.
Spurningin: Hversu lítið?
Ég segi: Ég veit hvernig ég er skyld síðustu fjórum forsetum.
Íslenska byggðin er nánast öll við sjó. Þegar amma mín var 7 ára, árið 1939, flutti fjölskyldan hennar frá Djúpavogi til Reykjavíkur – frá einum endanum til annars – með skipi. Að sama skapi skildu faðir minn og móðir þegar ég var ungabarn og eina leiðin til þess að komast frá öðru til hins var að sigla með ferju í þrjá klukkutíma aðra leið.
Spurningin: Að eignast barn?
Ég segi: Strengurinn er eins og tyggjó sem teygist örlítið meir með hverjum deginum.
Í ferjunni var matsölustaður sem steikti hamborgara og franskar, og seldi nammi og ís. Foreldrar mínir gáfu mér yfirleitt smá pening til þess að kaupa nammi og ef eitthvað kæmi upp á átti ég að fara til Berglindar í sjoppunni. Ég keypti mér alltaf sama nammið: túpu af bleiku nammikremi sem maður kreisti beint upp í sig. Var þetta stór túpa? Svarið er já, nokkuð stór. Ekki ólíkt barnatannkremi. Ég veit ekki hversu margar túpur ég gleypti áður en ég komst að því að þetta krem var í rauninni tyggjó.
Orðatiltækið Allir vegir liggja til Rómar á ekki við þegar þú býrð á eyju, heldur Öll vötn falla til Dýrafjarðar.
Ég segi: Ég bað oft um hjálp í dag.
Ég segi: Og ég fékk oft hjálp í dag.
[Sena: brautarpallur, tvær níðþungar töskur, risastór ferðataska undir Bugaboo kerru, tveir bakpokar, taupoki með skiptidóti, leikföngum, barnamat, teppi; móðir (30) í þungri ullarkápu, faðir (33) í þungum ullarfrakka, barn (0) í burðarpoka framan á öðru hvoru; móðirin tekur skyndiákvörðun að taka aðra lest en ætlað var, lestin er alveg að fara, hún hoppar upp í með barnið og kerrutöskuna; faðirinn, ringlaður, eltir, en það er bil milli lestarinnar og brautarpallsins, töskurnar eru þungar, tröppurnar, tröppurnar, töskurnar eru fastar í tröppunum, það er bil milli lestarinnar og brautarpallsins. Faðirinn nær þessu naumlega, dyrnar lokast, lestin fer af stað. Móðirin sér að þau eru að gera vitleysu. Það er ekkert annað í stöðunni en að hlæja sig máttlausa.]
Orðatiltækið Að falla milli skips og bryggju: að gleymast í kerfinu, að verða útundan.
Ég veit ekki hvernig það var í útlöndum, en í kringum aldamótin á Íslandi var lífseig staðreynd sem allir virtust vita: Að það tæki sjö ár fyrir líkamann að melta tyggjó. Ég held að það sé búið að afsanna þessa kenningu. Ég held það.
WAT HEEFT DIT VERHAAL GEÏNSPIREERD?
Meer van Fríða Ísberg en Laura Molenaar
Zie The Chronicles live tijdens Crossing Border 2022